Trúfræðslurit Kaþólsku Kirkjunnar |
FYRSTI HLUTI: TRÚARJÁTNINGIN
FYRSTI ÞÁTTUR - ÉG TRÚI - VÉR TRÚUM
ÞRIÐJI KAFLI: MAÐURINN SVARAR GUÐI
142. (1102) Með opinberun sinni og út frá fullnustu kærleika síns, ávarpar hinn ósýnilegi Guð mennina sem vini sína og hann hrærist á meðal þeirra til að bjóða þeim að hann taki þá inn í sinn eigin félagsskap. [1] Eina fullnægjandi svar við þessu boði er trúin.
143. (2087) Með trú lætur maðurinn Guði í hendur vitsmuni sína og vilja. [2] Maðurinn gefur Guði, sem opinberar sig, jáyrði sitt af heilum hug. Heilög Ritning kallar þetta svar mannsins til Guðs, höfundar sköpunarinnar, hlýðni trúarinnar. [3]
« 1. GREIN - ÉG TRÚI
I. HLÝÐNI TRÚARINNAR
144. Að hlýða (komið úr latínu ob-audire, að heyra eða hlýða á) í trú er að gefa sig fúslega að því orði sem heyrt er vegna þess að sannindi þess eru tryggð af Guði, sem er sannleikurinn sjálfur. Abraham er fyrirmyndin að slíkri hlýðni sem Heilög Ritning heldur að okkur. María mey er fullkomnasta ímynd hlýðninnar.Abraham - faðir allra þeirra sem trúa
145. (59, 2570, 489) Í sinni merku lofræðu um trú forfeðra Ísraels leggur Hebreabréfið sérstaka áherslu á trú Abrahams: Fyrir trú hlýddi Abraham, er hann var kallaður, og fór burt til staðar, sem hann átti að fá til eignar. Hann fór burt og vissi ekki hvert leiðin lá. [4] Fyrir trú bjó hann sem aðkomumaður og útlendingur í fyrirheitna landinu. [5] Fyrir trú varð Sara þunguð af syninum sem fyrirheit var gefið um. Og fyrir trú gaf Abraham eina son sinn til fórnar. [6]
146. (1819) Abraham uppfyllir þannig skilgreininguna á trú í Hebreabréfinu (11:1): Trúin er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá: [7] Abraham trúði Guði, og það var reiknað honum til réttlætis. [8] Vegna þess að Abraham gerðist styrkur í trúnni varð hann faðir allra þeirra sem trúa. [9]
147. (839) Gamla testamentið er auðugt í vitnisburði um þessa trú. Hebreabréfið kunngerir í lofræðu sinni fyrirmyndartrú forfeðranna sem fengu góðan vitnisburð. [10] En Guð hafði séð oss fyrir því sem betra var: náðinni að trúa á Son sinn Jesúm, höfund og fullkomnara trúarinnar. [11]
María - sæl er hún sem trúði
148. (494, 2617, 506) María mey er fullkomnasta ímyndin af hlýðni við trúna. Fyrir trú tekur María við tíðindunum og fyrirheitinu sem engillinn Gabríel færir henni; hún trúði að Guði væri enginn hlutur um megn og því gefur hún jáyrði sitt: Sjá, ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orði þínu. [12] Elísabet heilsar henni og segir: Sæl er hún sem trúði því að rætast mundi það sem sagt var við hana frá Drottni. [13] Það er fyrir þessa trú að allar kynslóðir hafa sagt Maríu sæla vera. [14]
149. (969, 507, 829) Allt í gegnum líf sitt og uns hún fékk að reyna síðustu þrautir sínar, [15] þegar Jesús, sonur hennar, dó á krossinum, hikaði María aldrei í trú sinni. Hún hætti aldrei að trúa að efndir yrðu á orði Guðs. Og því heiðrar kirkjan Maríu í hreinasta skilningi trúarinnar.
II. ÉG VEIT Á HVERN ÉG TRÚI [16]
Trú á Guð einan150. (222) Trúin er fyrst og fremst persónuleg hollusta mannsins við Guð. Samtímis, og óaðskiljanlega, er hún frjálst samþykki við öllum sannleikanum sem Guð hefur opinberað. Sem persónuleg hollusta við Guð og samþykki á sannleika hans er kristin trú ólík trú okkar á nokkra mannlega persónu. Það er verðugt og rétt að ganga Guði í einu og öllu á hönd og trúa algerlega öllu því sem hann segir. Það væri fánýtt og rangt að setja slíkt traust á það sem skapað er. [17]
Trú á Jesúm Krist, Son Guðs
151. (424) Hjá hinum kristna manni getur trúin á Guð ekki verið aðskilin trúnni á hann sem hann sendi, elskaðan Son sinn sem Faðirinn hefur velþóknun á; Guð segir okkur að hlýða á hann. [18] Drottinn sjálfur segir við lærisveina sína: Trúið á Guð og trúið á mig. [19] Við getum trúað á Jesúm Krist vegna þess að hann sjálfur er Guð, Orðið sem gerðist hold: Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Sonurinn eini, sem er í faðmi Föðurins, hann hefur birt hann. [20] Vegna þess að hann hefur séð Föðurinn er Jesús Kristur sá eini sem getur opinberað hann. [21]
Trú á hinn Heilaga Anda
152. (243, 683) Ekki er hægt að trúa á Jesúm Krist án þess að eiga hlut í Anda hans. Það er Heilagur Andi sem opinberar mönnunum hver Jesús er. Því enginn getur sagt: Jesús er Drottinn nema af Heilögum Anda, [22] sem rannsakar allt, jafnvel djúp Guðs. Þannig hefur heldur enginn komist að raun um hvað Guðs er, nema Guðs Andi. [23] Einungis Guð þekkir Guð fullkomlega: Við trúum á Heilagan Anda því að hann er Guð. Kirkjan kunngerir linnulaust trú sína á hinn eina Guð: Föður, Son og Heilagan Anda.
III. EINKENNI TRÚARINNAR
Trúin er náð153. (552, 1814, 1996, 2606) Þegar heilagur Pétur játaði að Jesús væri Kristur, Sonur hins lifanda Guðs, sagði Jesús honum að hold og blóð hefði ekki opinberað honum þetta, heldur Faðir minn á himnum. [24] Trúin er gjöf Guðs, yfirnáttúrleg dyggð sem hann blæs manninum í brjóst (virtus infusa). Áður en að hægt er að iðka þessa trú verður maðurinn að hafa náð frá Guði til að hreyfa við honum og aðstoða hann; hann verður að njóta innri aðstoðar Heilags Anda, sem hreyfir hjartað til afturhvarfs til Guðs, sem upplýsir hugskotssjónir og gerir öllum auðvelt að meðtaka og trúa sannleikanum. [25]
Trúin er mannleg athöfn
154. (1749, 2126) Einungis er hægt að trúa með náð og innri aðstoð Heilags Anda. Engu að síður er það satt að trúin er með sönnum hætti mannleg athöfn. Að hafa tiltrú á Guði og halda fast við sannleikann sem hann hefur opinberað, stríðir hvorki á móti mannlegu frelsi eða mannlegri skynsemi. Jafnvel í mannlegum samskiptum stríðir það ekki gegn tign okkar að trúa því sem aðrir segja okkur um þá sjálfa og fyrirætlanir þeirra, eða treysta á heit þeirra (til dæmis þegar karl og kona ganga í hjónaband) að eiga samfélag hvor við annan í lífinu. Ef þetta er með þessum hætti stríðir það enn minna gegn tign okkar að við eftirlátum það í trú að vitsmunir okkar og vilji verði fullkomlega undirgefnir Guði sem opinberar [26] og að við eigum innra samfélag við hann.
155. (2008) Í trúnni eiga vilji mannsins og vitsmunir hans samstarf við hina guðdómlegu náð: Að trúa er það að vitsmunirnir samþykkja hinn guðdómlega sannleika að boði viljans sem hrærður er af Guði fyrir náðina. [27]
Trú og skilningur
156. (1063, 2465, 548, 812) Ekki erum við hrærð til að trúa fyrir þá staðreynd að opinberaður sannleikurinn sé sannur og skiljanlegur í ljósi náttúrlegrar skynsemi okkar. Við trúum vegna myndugleika Guðs sem opinberar sannleikann og getur hvorki blekkt né verið blekktur. [28] En til að trú okkar í undirgefni sinni sé engu að síður í samræmi við skynsemina, var það vilji Guðs að innri aðstoð Heilags Anda skyldi fylgja ytri vitnisburður (argumenta) á opinberun hans. [29] Þannig að kraftaverk Krists og dýrlinganna, spádómarnir, vöxtur kirkjunnar og heilagleiki, frjósemi og stöðugleiki hennar eru örugg tákn um guðdómlega opinberun sem allir fá skilið; þau eru tilefni trúverðugleikans (motiva credibilitatis) sem sýnir að samþykki við trúna stafar á engan hátt af blindri hvatningu hugans. [30]
157. (2088) Trúin er örugg. Hún er öruggari en öll mannleg þekking vegna þess að hún byggist á sjálfu orði Guðs sem getur ekki sagt ósatt. Vissulega getur opinberaður sannleikurinn virst vera óljós skynsemi og reynslu mannsins, en sú vissa sem hið guðdómlega ljós gefur er meira en það sem ljós náttúrlegrar skynsemi gefur. [31] Erfiðleikar í tugþúsunda tali fá mann ekki til að efast. [32]
158. (2705, 1827, 90, 2518) Trúin leitar skilnings: [33] Það er eiginlegt trúnni að sá sem trúir þrái að þekkja betur þann sem hann hefur sett trú sína á og að skilja betur það sem hann hefur opinberað; dýpri þekking leiðir til meiri trúar, trúar sem brennur æ meir af kærleika. Náð trúarinnar opnar sálarsjón yðar [34] til lifandi skilnings á innihaldi opinberunarinnar, það er að segja, á allri fyrirætlun Guðs og leyndardómum trúarinnar, sambandi þeirra innbyrðis og við Krist, sem er miðpunktur hins opinberaða leyndardóms. Heilagur Andi fullkomnar sífellt trúna með gjöfum sínum til að opinberunin verði stöðugt skilin á dýpri hátt. [35] Eða með orðum heilags Ágústínusar: Ég trúi til að skilja; og ég skil til að trúa betur. [36]
159. (283, 2293) Trú og vísindi: Enda þótt trúin sé ofar skynseminni getur aldrei verið um að ræða neitt raunverulegt ósamræmi milli trúar og skynsemi. Úr því að það er hinn sami Guð sem setur í mannlegan huga ljós skynseminnar og opinberar leyndardóma og gefur trúna, getur Guð ekki afneitað sjálfum sér, og sömuleiðis getur sannleikur ekki andmælt sannleika. [37] Kerfisbundin rannsókn á öllum sviðum þekkingar, sé hún gerð á sannan vísindalegan hátt og virðir grunnreglur siðferðis, getur aldrei strítt á móti trúnni vegna þess að það sem heyrir til heiminum og það sem heyrir til trúnni á rætur að rekja til hins sama Guðs. Sá sem er auðmjúkur og þolinmóður í rannsóknum sínum á leyndarmálum náttúrunnar er á vissan hátt, þrátt fyrir hvað hann sjálfur gerir, svo að segja undir handleiðslu Guðs, því það er Guð, verndari allra hluta, sem gerði þá að því sem þeir eru. [38]
Frelsi trúarinnar
160. (1738, 2106, 616) Til að það sé mannlegt verður svarið sem maðurinn gefur Guði í trú að vera sjálfviljugt og því má ekki neyða neinn til að taka trú gegn vilja sínum. Það liggur í eðli trúarinnar að vera frjáls athöfn. [39] Guð kallar mennina til að þjóna sér í anda og sannleika. Þótt þeir séu þannig bundnir honum samviskuböndum felst í því engin nauðung. Það varð fullljóst í Kristi Jesú. [40] Kristur bauð fólki að taka trú og leita afturhvarfs en hann beitti aldrei neinn þvingunum. Því hann bar sannleikanum vitni en hafnaði því að beita valdi til að þröngva honum upp á þá sem töluðu gegn honum. Konungsríki hans vex fyrir kærleikann, en með honum dregur Kristur, upphafinn á krossinum, alla menn til sín. [41]
Nauðsyn trúarinnar
161. (432, 1257, 846) Að trúa á Jesúm Krist og á hann sem sendi hann okkur til hjálpræðis er nauðsynlegt til að öðlast það hjálpræði. [42] Úr því að án trúar er ógerlegt að þóknast [Guði] og öðlast erfðahlut sona hans, getur enginn nokkru sinni fengið réttlætingu án trúar og ekki mun neinn öðlast eilíft líf nema sá sem staðfastur er allt til enda. [43]
Þolgæði í trúnni
162. (2089, 1037, 2016, 2573, 2849) Trúin er að öllu leyti frí gjöf Guðs til mannsins. Við getum glatað þessari ómetanlegu gjöf eins og heilagur Páll varaði Tímóteus við: Skalt þú berjast hinni góðu baráttu í trú og með góðri samvisku. Henni hafa sumir frá sér varpað og liðið skipbrot á trú sinni. [44] Til að lifa, vaxa og vera staðföst í trúnni allt til enda verðum við að næra hana með orði Guðs; við verðum að biðja Drottinn heitt og innilega að auka okkur trú; [45] trúin verður að starfa í kærleika, vera auðug í voninni og eiga rætur í trú kirkjunnar. [46]
Trúin - upphaf eilífs lífs
163. (1088) Trúin gefur okkur forsmekkinn að ljósi hinnar sælu sýnar sem vegferð okkar hér niðri hefur að markmiði. Þá munum við sjá Guð augliti til auglitis, eins og hann er. [47] Þannig er trúin þegar byrjunin á eilífu lífi: Þegar við hugleiðum, jafnvel nú, blessun trúarinnar, líkt og við einblíndum á spegilmynd, er engu líkara en við eigum þegar hina dásamlegu hluti sem trú okkar gefur fyrirheit um að við munum dag einn njóta. [48]
164. (2846, 309, 1502, 1006) Nú, hins vegar, lifum vér í trú en sjáum ekki; [49] þekking okkar á Guði er svo sem í skuggsjá, í ráðgátu og er í molum. [50] Jafnvel þótt trúin sé upplýst af honum sem hún trúir á, er henni oft lifað í myrkri og á hana kann að reyna. Sú veröld sem við lifum í virðist oft vera í óra fjarlægð frá þeirri veröld sem trúin gefur fyrirheit um. Reynsla okkar af illskunni og þjáningunni, óréttlæti og dauða virðist stangast á við fagnaðarerindið. Slík reynsla getur komið róti á trú okkar og orðið tilefni til freistingar gegn henni.
165. (2719) Það er þá sem við verðum að snúa okkur til votta trúarinnar: til Abrahams sem trúði með von gegn von; [51] til Maríu meyjar sem á vegferð sinni í trúnni, gekk inn í nótt trúarinnar [52] þegar hún varð hluttakandi í því myrkviðri sem þjáningar og dauði sonar hennar voru; og til svo margra annarra: Fyrst vér erum umkringdir slíkum fjölda votta, léttum þá af oss allri byrði og viðloðandi synd og þreytum þolgóðir skeið það sem vér eigum framundan. Beinum sjónum vorum til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar. [53]
« 2. GREIN - VIÐ TRÚUM
166. (875) Að trúa er persónuleg athöfn, frjálst svar mannsins við frumkvæði Guðs sem opinberar sig. En að trúa er ekki einangruð athöfn. Enginn getur trúað einn á sama hátt og enginn getur lifað einn. Og enginn hefur gefið sjálfum sér trúna líkt og enginn hefur gefið sjálfum sér líf. Sá sem trúir hefur meðtekið trúna frá öðrum og hann á að láta hana ganga áfram til annarra. Kærleikur okkar til Jesú og til náunga okkar knýr okkur til að tala við aðra um trú okkar. Hver sá sem trúir er þannig hlekkur í hinni löngu keðju trúaðra. Ég get ekki trúað án þess að trú annarra beri mig og með trú minni hjálpa ég að styrkja aðra í trúnni.
167. (1124, 2040) Ég trúi (postullega trúarjátningin): Þetta er trú kirkjunnar sem hver trúaður maður játar persónulega, einkum í skírninni. Vér trúum (Níkeu-Konstantínópel trúarjátningin): Þetta er trú kirkjunnar sem játuð er af biskupum, samankomnum á kirkjuþingi, eða sem er enn almennara, af iðkendum trúarinnar í helgisiðaathöfnum sínum. Ég trúi: Hér er einnig kirkjan, móðir okkar, að svara Guði í trú meðan hún kennir okkur að segja: Ég trúi og vér trúum.
I. DROTTINN, SJÁÐU TRÚ KIRKJU ÞINNAR
168. (1253) Kirkjan er fyrri til að trúa og því ber hún trú mína, nærir hana og styrkir. Alls staðar er það kirkjan sem fyrst játar Drottin: Um allan heim lofar heilög kirkja þig, syngjum við í sálminum Te Deum; með henni og í henni látum við sannfærast og játum: Ég trúi, vér trúum. Það er í gegnum kirkjuna að við meðtökum trúna og nýtt líf í Kristi í skírninni. Í hinu rómverska ritúali spyr sá sem þjónar við skírnina trúnemann: Hvers biður þú af kirkjunni? Og svarið er: Trúar. Hvað gefur trúin þér? Eilíft líf. [54]169. (750, 2030) Hjálpræðið kemur frá Guði einum; en þar eð við höfum öðlast trúarlíf í gegnum kirkjuna, er hún móðir okkar: Við trúum kirkjunni sem móður nýrrar fæðingar okkar, en ekki á kirkjuna sem væri hún höfundur hjálpræðis okkar. [55] Vegna þess að hún er móðir okkar, er hún einnig kennari okkar í trúnni.
II. TUNGUMÁL TRÚARINNAR
170. (186) Við trúum ekki á formúlur heldur á þann veruleika sem þær láta í ljós og sem trúin leyfir okkur að snerta á. Trúariðja þess sem trúir staðnæmist ekki við það sem sagt er heldur við þann veruleika sem látinn er í ljós. [56] Engu að síður er skipulögð framsetning trúarinnar okkur hjálp í því að nálgast þennan veruleika. Hún gerir okkur kleift að láta í ljós trúna og láta hana ganga áfram, hafa hana um hönd í samfélagi við aðra, og að samlagast og lifa henni æ meir.171. (78, 857, 84, 185) Kirkjan, stólpi og grundvöllur sannleikans verndar af trygglyndi þá trú sem heilögum hefur í eitt skipti fyrir öll verið í hendur seld. Hún verndar minnið um orð Krists; það er hún sem lætur játningu postulanna á trúnni ganga að erfðum frá kyni til kyns. [57] Líkt og móðir sem kennir börnum sínum að tala og þannig að skilja og tjá sig, kennir móðir okkar, kirkjan, okkur tungumál trúarinnar til að við komumst til lífs í trúnni og skilnings á henni.
III. EINUNGIS EIN TRÚ
172. (813) Í gegnum aldirnar hefur kirkjan, á alls konar tungum og menningarsvæðum, hjá alls konar þjóðarbrotum og þjóðum, stöðugt játað þessa einu trú, sem meðtekin er frá hinum eina Drottni, miðluð í gegnum hina einu skírn, og grundvölluð í þeirri sannfæringu að allir menn hafi einungis einn Guð og Föður. [58] Heilagur Íreneus frá Lyon, vottur þessara trúar, segir:173. (830) Þótt kirkjan sé dreifð um allan heim, jafnvel til endimarkar jarðar, hefur hún meðtekið eina trú frá postulunum og lærisveinum þeirra og verndar hún þessa prédikun og trú af kostgæfni líkt og hún búi í einu einasta húsi og trúi sem hún hefði eina og sömu sál, eitt og sama hjarta og prédikaði, kenndi og léti þessa trú ganga að erfðum einum rómi eins og hún hefði einungis einn munn. [59]
174. (78) Enda þótt talaðar séu mismunandi tungur um heim allan er innihald þessarar erfikenningar eitt og hið sama. Kirkjurnar sem settar eru á stofn í Þýskalandi hafa engar aðra trú eða erfikenningu og ekki heldur þær sem eru meðal Íbera, ekki heldur þær sem eru meðal Kelta eða þær sem eru í Austurvegi, í Egyptalandi eða í Libýu eða þær sem eru í miðju heimsins. [60] Boðskapur kirkjunnar er sannur og áreiðanlegur því að það er í honum sem hin eina og sama leiðin til hjálpræðis birtist um gervallan heim. [61]
175. Við varðveitum af kostgæfni trúna sem við höfum meðtekið frá kirkjunni vegna þess að með athöfnum Anda Guðs er þessi svo mjög dýrmæti arfur, búinn öndvegis keri, sífellt endurnýjaður og veldur því að sjálft kerið sem geymir hann endurnýjast. [62]
Í STUTTU MÁLI
176. Trúin er persónuleg og heilshugar tryggð mannsins við Guð sem opinberar sig. Það felur í sér viðurkenningu vitsmuna og vilja á opinberun Guðs á sjálfum sér í orðum og gjörðum.
177. Að trúa hefur þannig tvo þætti: Við trúum á persónuna og á sannleikann - á sannleikann af tiltrú á þá persónu sem ber honum vitni.
178. Við eigum að trúa á engan nema Guð: Föðurinn, Soninn og hinn Heilaga Anda.
179. Trú er yfirnáttúrleg gjöf Guðs. Til að trúa verður maðurinn að fá aðstoð Heilags Anda hið innra.
180. Að trúa er mannleg athöfn sem er meðvituð og sjálfviljug og samsvarar mannlegri tign.
181. Að trúa er kirkjuleg athöfn. Trú kirkjunnar er fyrri til og hrærir, styrkir og nærir trú okkar. Kirkjan er móðir allra þeirra sem trúa. Sá sem hefur ekki kirkjuna að móður getur ekki haft Guð að Föður (hl. Kýpríanus, De unit. 6: PL 4, 519).
182. Vér trúum öllu því sem Guðsorð inniheldur, ritað er í erfikenningunni og sem kirkjan ætlast til að trúað sé sem opinberað af Guði (Páll VI, CPG § 20).
183. Trúin er nauðsynleg til hjálpræðis. Sjálfur segir Drottinn: Sá sem trúir og skírist mun hólpinn verða, en sá sem trúir ekki mun fyrirdæmdur verða (Mk 16:16).
184. Trúin er forsmekkur þeirrar þekkingar sem mun gera okkur sæl í hinu komanda lífi (hl. Tómas frá Akvínó, Comp. theol. 1, 2).
Óopinber útgáfa © Reynir K. Guðmundsson þýddi Bráðabirgðaþýðing |
- DV 2; sbr. Kól 1:15; 1Tm 1:17; 2M 33:11; Jh 15:14-15; Br 3:38 (Vulg.).
- Sbr. DV 5.
- Sbr. Rm 1:5; 16:26.
- Heb 11:8; sbr. 1M 12:1-4.
- Sbr. 1M 23:4.
- Sbr. Heb 11:17.
- Heb 11:1.
- Rm 4:3; sbr. 1M 15:6.
- Rm 4:11, 18; 4:20; sbr. 1M 15:5.
- Heb 11:2, 39.
- Heb 11:40; 12:2.
- Lk 1:37-38; sbr. 1M 18:14.
- Lk 1:45.
- Sbr. Lk 1:48.
- Sbr. Lk 2:35.
- 2Tm 1:12.
- Sbr. Jer 17:5-6; Sl 40:5; 146:3-4.
- Mk 1:11; sbr. 9:7.
- Jh 14:1.
- Jh 1:18.
- Jh 6:46; sbr. Mt 11:27.
- 1Kor 12:3.
- 1Kor 2:10-11.
- Mt 16:17; sbr. Gl 1:15; Mt 11:25.
- DV 5; sbr. DS 377; 3010.
- Dei Filius 3: DS 3008.
- Hl. Tómas frá Akvínó, STh II-II, 2, 9; sbr. Dei Filius 3: DS 3010.
- Dei Filius 3: DS 3008.
- Dei Filius 3: DS 3009.
- Dei Filius 3: DS 3008-10; sbr. Mk 16:20; Heb 2:4.
- Hl. Tómas frá Akvínó, STh II-II, 171, andm. 3.
- John Henry Newman kardínáli, Apologia pro vita sua (London: Longman, 1878), 239.
- Hl. Anselmus, Prosl. prooem.: PL 153, 225A.
- Ef 1:18.
- DV 5.
- Hl. Ágústínus, Sermo 43, 7, 9: PL 38, 257-258.
- Dei Filius 4: DS 3017.
- GS 36 § 1.
- DH 10; sbr. CIC grein 748 § 2.
- DH 11.
- DH 11; sbr. Jh 18:37; 12:32.
- Sbr. Mk 16:16; Jh 3:36; 6:40 m.a.
- Dei Filius 3: DS 3012; sbr. Mt 10:22; 24:13 og Heb 11:6; kirkjuþingið í Trent: DS 1532.
- 1Tm 1:18-19.
- Sbr. Mk 9:24; Lk 17:5; 22:32.
- Gl 5:6; Rm 15:13; sbr. Jk 2:14-26.
- 1Kor 13:12; 1Jh 3:2.
- Hl. Basílíus, De Spiritu Sancto, 15, 36: PG 32, 132; sbr. hl. Tómas frá Akvínó, STh II-II, 4, 1.
- 2Kor 5:7.
- 1Kor 13:12.
- Rm 4:18.
- LG 58; Jóhannes Páll II, RMat 18.
- Heb 12:1-2.
- Rituale Romanum, skírnarathöfn fullorðinna.
- Faustus frá Riez, De Spiritu Sancto 1, 2: PL 62, 11.
- Hl. Tómas frá Akvínó, STh II-II, 1, 2, ad 2.
- 1Tm 3:15; Jd 3.
- Sbr. Ef 4:4-6.
- Hl. Íreneus, Adv. haeres. 1, 10, 1-2: PG 7/1, 549-552.
- Hl. Íreneus, Adv. haeres. 1, 10, 1-2: PG 7/1, 552-553.
- Hl. Íreneus, Adv. haeres. 5, 20, 1: PG 7/2, 1177.
- Hl. Íreneus, Adv. haeres. 3, 24, 1: PG 7/1, 966.